Gakktu bljúgur


gakktu bljúgur á böðlanna fund
betlaðu af þeim miskunn enda standi þeim allt þitt til boða
sannfæring gildi og siðir allir
ef þeir sjái í gegnum fingur við þig leysi þig frá verðskulduðum voða
gakktu boginn á böðlanna fund
biddu grátandi um náð þú vildir segðu engan styggja
spyrðu hvað svo þóknist þeim
hvort þér sé sæmra á bakinu eða maganum að liggja
.....er traðka þeir á þér takið frekar hinn hann á það skilið
.....hann tekur engum sönsum segðu og sættir sig aldrei við spilið

skreiðstu brotinn á böðlanna fund
bjóddu þeim allt semað áttu og allir þínir vinir
sárbændu um að gefa þér grið
því þú gerðir ekkert nema í bestu meiningu það voru allir hinir
þiggðu flatur böðlanna boð
og hlýddu bönnum þeirra af kostgæfni og vísaðu veglyndur á aðra
við þeim hlæðu og hræðstu þá í senn
berðu hundsins aðalsmerki gakktu sem lengst í að fletta’onaf og flaðra
.....glaður vertu er traðka á þér þeir gera það sem er þér fyrir bestu
.....gerðu þér það upp uns það er ekta þakklætið því þakklæti er fyrir mestu

vertu breiður í böðlanna hóp
bentu þeim á alla þá sem eru ekki á réttum kanti
þú þekkir þá best því á þeirra öxl gréstu
er á þinn rétt fannst þér gengið og grátt leikinn af lögleyfðum fanti
efast aldrei um að í þeirra klíku
eigirðu best heima og farðu sem framast
vertu bæði auga þeirra og eyru
uns hatrið á sjálfum þér er þínu eigin eðli tamast
.....blóðug og meidd og marin en þakklát kossum heitum
.....maklega vöndinn heiðra skalt’ án afláts uns orðinn ert að þræli akfeitum

Megas

Lífsunaður


Er ég geng til fjalla
í höfði mínu klingir bjalla,
fegurð og undur,
steinar, hnjúkar, lundur.
Tindar, syllur, ásar,
skógur, hvinur, básar.
Fuglar, sauðfé, friður,
hellar, hæðir, skriður.
Tærar tjarnir og syndandi lómar,
flugnasuð og töfrandi hljómar.

Grænir balar vötn og gil,
grjót og líf í lækjarhyl.
Refir, rjúpur og dvergaher,
fossar, hraun og fuglager.
Sprænur, hólar og dýraból
rauðamöl, sandur og fjallasól.
Gamlar traðir, hestaslóðir,
hlaðnir veggir, fornar hlóðir.
Grónar hlíðar, berjalyng
stuðlaberg og hrafnaþing.

Gljúfur, stórfljót, glymjandi,
jöklar, ár og hrynjandi.
Skútar, gjár og hylir,
borgir, hallir, kilir.
Móberg, hríslur, tístandi þrestir
þegar assan flýgur, óboðnir gestir.
Vindbarðir klettar og pollar
lömb og lóur, svo lúmskir skollar.
Uppblásin jörð, litlir og lúnir þúfukollar,
líflítill svörður, smáar jurtir engum hollar.

Sjálfhelda, fjallsbrún og kindasmali
þá er sem fjöllin háu tali.
Sviti, hræðsla, von um leið
þó smalinn viti að sé ógreið.
Göngum saman í fjallasali,
hlustum eftir álfa og tröllahjali,
horfum, dáumst, þarna er grasabali,
sama þótt vindur hvæsi og kali.
Þá er víst að sælan tekur völd,
til þess er jú lífið og fagurt kvöld.

"Lávarðurinn"
Málverk eftir Jóhannes S. Kjarval

Ferðalög


Hversu oft hefur þú ekki keyrt meðfram suðurströnd Íslands?
Yfir sandana svörtu, oftar en ekki í tvísýnu veðri.
Fundið til léttis þegar ljósin á Klaustri, í Vík eða á Selfossi sáust í gegnum sortann.
Samt þekktir þú eiginlega engan á þessum stöðum.
Og þeir fáu sem þekktu þig voru yfirleitt farnir að sofa.

Lómagnúpurinn, sem staðið hefur óhaggaður í þúsundir ára,
sá þig, þar sem þú fórst og hafði samúð með þér,
þar sem þú gerðir þér ekki alltaf grein fyrir smæð þinni,
hvað þá raunverulegum tilgangi þessara ferða.

Hver var hann?
Var ekki oft verið að flýja sjálfan sig og aðra?
Og fyrir þína hönd þá er það mín heitasta ósk
að næsta ferð verði ekki erindisleysa.

Óskar Þór Óskarsson