Lífsunaður


Er ég geng til fjalla
í höfði mínu klingir bjalla,
fegurð og undur,
steinar, hnjúkar, lundur.
Tindar, syllur, ásar,
skógur, hvinur, básar.
Fuglar, sauðfé, friður,
hellar, hæðir, skriður.
Tærar tjarnir og syndandi lómar,
flugnasuð og töfrandi hljómar.

Grænir balar vötn og gil,
grjót og líf í lækjarhyl.
Refir, rjúpur og dvergaher,
fossar, hraun og fuglager.
Sprænur, hólar og dýraból
rauðamöl, sandur og fjallasól.
Gamlar traðir, hestaslóðir,
hlaðnir veggir, fornar hlóðir.
Grónar hlíðar, berjalyng
stuðlaberg og hrafnaþing.

Gljúfur, stórfljót, glymjandi,
jöklar, ár og hrynjandi.
Skútar, gjár og hylir,
borgir, hallir, kilir.
Móberg, hríslur, tístandi þrestir
þegar assan flýgur, óboðnir gestir.
Vindbarðir klettar og pollar
lömb og lóur, svo lúmskir skollar.
Uppblásin jörð, litlir og lúnir þúfukollar,
líflítill svörður, smáar jurtir engum hollar.

Sjálfhelda, fjallsbrún og kindasmali
þá er sem fjöllin háu tali.
Sviti, hræðsla, von um leið
þó smalinn viti að sé ógreið.
Göngum saman í fjallasali,
hlustum eftir álfa og tröllahjali,
horfum, dáumst, þarna er grasabali,
sama þótt vindur hvæsi og kali.
Þá er víst að sælan tekur völd,
til þess er jú lífið og fagurt kvöld.

"Lávarðurinn"
Málverk eftir Jóhannes S. Kjarval

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home