Ferðalög


Hversu oft hefur þú ekki keyrt meðfram suðurströnd Íslands?
Yfir sandana svörtu, oftar en ekki í tvísýnu veðri.
Fundið til léttis þegar ljósin á Klaustri, í Vík eða á Selfossi sáust í gegnum sortann.
Samt þekktir þú eiginlega engan á þessum stöðum.
Og þeir fáu sem þekktu þig voru yfirleitt farnir að sofa.

Lómagnúpurinn, sem staðið hefur óhaggaður í þúsundir ára,
sá þig, þar sem þú fórst og hafði samúð með þér,
þar sem þú gerðir þér ekki alltaf grein fyrir smæð þinni,
hvað þá raunverulegum tilgangi þessara ferða.

Hver var hann?
Var ekki oft verið að flýja sjálfan sig og aðra?
Og fyrir þína hönd þá er það mín heitasta ósk
að næsta ferð verði ekki erindisleysa.

Óskar Þór Óskarsson

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home